Skip to main content

Aðferðin

ia: þýtt af Valgerði Ólafsdóttur
www.fokusing.is

Fókusing aðferðin felst í að læra á tilfinningar sínar með því að vera meðvitaður um líkamann. Þegar unnið er með fókusing aðferðina er athygli beint að líkamanum og það skoðað á meðvitaðan hátt hvernig við skynjum upplifanir líkamlega. Ferlið samanstendur af 6 þrepum og má segja að líkamsskynjunin eigi sér stað á svæðinu milli þess sem er meðvitað og ómeðvitað.

Fókusing þrep

1. Búa til rými, hreinsa til, skapa pláss fyrir okkur.

Hvernig hefur þú það, einmitt núna? Hvað er það sem kemur í veg fyrir að þér líði vel, einmitt núna? Ekki svara heldur láttu það sem líkaminn finnur búa til svarið. Ekki fara inn í neitt, láttu hins vegar það sem líkaminn skynjaði vita að þú tókst eftir því. Þegar þú hefur heilsað því sem líkaminn skynjaði, er þá eitthvað annað sem er þarna einhvers staðar, eitthvað sem vill athygli þína? Við byrjum á að athuga hvort það er allt í lagi að vera með því sem kom. Við flýtum okkur ekki. Við högum okkur miklu frekar eins og við myndum haga okkur við barn sem er hrætt og óöruggt. Við ýtum ekki á eftir neinu, leyfum því að vera sem er, án þess að hafa skoðun á því.

2. Felt sense, tilkennd.

Veldu eitt atriði eða láttu líkamann velja það sem helst vill athygli núna. Ekki fara inn í það, heldur spurðu þig að því hvað það er sem þú skynjar í líkamanum þegar þú finnur fyrir "öllu þessu" sem fylgir því sem þú ert að einbeita þér að. Skynjaðu "allt þetta", allt sem fylgir "þessu" (vandamáli). Leyfðu þér að skynja með líkamanum það sem kemur með þessari tilfinningu, allt þetta óljósa sem þú hefur ekki orð yfir ennþá en líkaminn veit nákvæmlega hvað er. Við bara sitjum með því sem er þarna og sýnum því nærgætinn áhuga. Oft gerum við ráð fyrir að við vitum eitthvað um þetta en það er alltaf best að nálgast þetta eins og við vitum ekkert um það.

3. Finna handfangið.

Hvert er einkenni, sérkenni "þessa alls" og hvar finnur þú fyrir því? Er eitthvert orð, hugtak eða ímynd sem kemur út úr þessari tilkennd, þessum "felt sense"? Er eitthvað sem myndi helst passa við þetta sem þú skynjar þarna í líkamanum og er ennþá óljóst en þú veist samt einhvers staðar í líkamanum alveg nákvæmlega hvað er? Hingað til höfum við verið að nálgast það sem er þarna að utan, frá okkar sjónarhorni. Nú er kominn tími til að athuga hvernig þessu líður frá sínu sjónarhorni. Athugið muninn á "mér líður skringilega þarna" og "því líður einhvern veginn skringilega".

4. Endurvarpa, finna nákvæmlega það sem passar.

Farið fram og til baka milli tilkenndarinnar og orðsins. Finnið hvernig þau passa saman. Finnið hvort þið finnið það í líkamanum hvort þau passa saman. Leyfið tilfinningunni að breytast þangað til hún passar við orðið og sömuleiðis orðinu eða ímyndinni að breytast þangað til tilfinningin er rétt. Það verður mjög augljóst þegar bæði eru nákvæmlega rétt . Þegar þetta nákvæmlega rétta er komið, takið ykkur þá eina mínútu eða svo til þess finna fyrir því í líkamanum.

5. Spyrja.

Nú er kominn tími til að spyrja. Fyrst þurfum við að athuga hvort það sé í lagi að spyrja. Ef líkaminn vill það ekki þá er gott að spyrja hvort það megi spyrja það sem segir "það er ekki í lagi". Gott er að spyrja spurninga eins og "hvaða tilfinning er í þessu……" eða "hvað er það sem gerir þetta svona…" eða " er eitthvað sem …..þarf á að halda? Eða "hvað er það sem þarf að gerast næst". Ef við erum búin að spyrja um allt þetta og það er ennþá eitthvað sem er ekki alveg eins og það á að vera þá getur verið gott að spyrja: "Hvernig myndi mér líða ef allt væri alveg stórkostlegt núna"? Og bara bíða eftir að líkaminn svari.

Spyrjið tilfinninguna meðan þið eruð innan í henni:

  • hvað er það sem gerir "þetta" svona…?
  • hvað er það sem er svona……?

Ef ekkert hreyfist spyrjið þá:

  • Hvað er það versta við "þetta"?
  • Hvað er það sem "þetta" þarf frá mér, eða vill frá mér?
  • Ekki svara; bíðið eftir því að fá svarið frá líkamanum.

Þegar við erum búin að fá einhvers konar svar þá getum við spurt hvort það sé í lagi að hætta núna

6. Taka á móti.

Takið á móti því sem kom, gleðjist yfir því að það kom til ykkar og talaði við ykkur. Þetta er aðeins fyrsta skrefið í því að vinna við "þetta sem kom", en nú veist þú hvar það er og getur komið að því aftur seinna. Verndaðu það frá þínum "innri gagnrýni", innri röddum sem eiga til að trufla. Við þökkum líkama okkar fyrir það sem hann færði okkur í dag og segjum honum að við komum aftur á þennan stað til að halda áfram ef það er eitthvað meira sem vill koma í ljós.